fbpx

Stórglæsileg verslun Motivo í miðbænum

DFS 20. ágúst, 2021

Mynd: Gunnar Páll Pálsson.

Opnunarteiti var haldið í versluninni Motivo í gærkvöldi, en verslunin fluttist af Austurvegi í miðbæinn á Selfossi. Verslunin þykir stórglæsileg og vöruúrvalið er stóraukið. Við settumst niður í kaffisopa með Erlu Gísladóttur sem rekur verslunina ásamt dóttur sinni Ástu Björg Kristinsdóttur.

Móttökurnar alveg frábærar

Mynd: Gunnar Páll Pálsson.

Gestkvæmt var í gærkvöldi og í dag, þegar blaðamann bar að garði. „Móttökurnar hafa verið alveg frábærar og fólk ánægt með útlit verslunarinnar. Ég held að ég geti sagt að fólk finni ekki svona verslun, með þessu sniði, annarsstaðar,“ segir Erla. „Fólk getur komið hingað og fengið sér kaffisopa, bjór, léttvín eða bubblur á krana. Við erum með vínveitingaleyfi og getum tekið áfram á móti hópum eins og verið hefur, en við getum boðið upp á frábæra aðstöðu til þess fyrir ýmsa hópa og við erum strax farin að fá bókanir.“

Ásta á heiðurinn af hönnun verslunarinnar

Mynd: Gunnar Páll Pálsson.

Þegar blaðamaður ræðir útlit verslunarinnar segist  Erla vera afar sátt við útkomuna. „Ég verð að koma því á framfæri að Ásta Björg á heiðurinn af þessu en hún hefur ásamt manni sínum smíðað og hannað nánast allt hér inni í versluninni, með hjálp annarra vissulega.“ Erla segir að fjölskyldan sé samhent og allir hafi lagst á eitt með að koma verkefninu á koppinn. Óhætt er að segja að verslunin sé einstaklega vel heppnuð eins og myndirnar bera með sér.

Herrarnir geta fengið sér öl meðan þeir eru stílaðir til

Mynd: Gunnar Páll Pálsson.

Vöruúrval í fatnaði hefur aukist. Hægt er að fá útivistarfatnað, dömufatnað og barnafatnað í miklu úrvali. Þá segir Erla að úrvalið í herrafatnaði hafi aukist umtalsvert. „Við erum með flott vörumerki í herrafatnaði, ekki jakkaföt eða þannig, bara smart föt. Herrarnir eru velkomnir til okkar en starfsfólkið aðstoðar þá við að stíla sig upp fyrir hvert tilefni. Þá er ekkert verra að fá sér öl á meðan,“ segir Erla. Ennþá er haldið í grunninn og hönnunarvaran sem Motivo er þekkt fyrir er á sínum stað.

Nánar verður fjallað um opnunina í næsta tölublaði Dagskrárinnar.1 af 9  

Mynd: Gunnar Páll Pálsson.
Mynd: Gunnar Páll Pálsson.
Mynd: Gunnar Páll Pálsson.
Mynd: Gunnar Páll Pálsson.
Mynd: Gunnar Páll Pálsson.
Mynd: Gunnar Páll Pálsson.
Mynd: Gunnar Páll Pálsson.
Mynd: Gunnar Páll Pálsson.
Mynd: Gunnar Páll Pálsson.

Við notum kökur til að bæta síðuna okkar. Geymdar eru kökur með heimsóknartölfræði sem eingöngu eru notaðar af Motivo.